Skjótt skipast í veður í loft. Fyrir viku síðan mátti greina örlítinn bjartsýnistón hjá deiluaðilum á bæði opinbera og almenna vinnumarkaðnum en í byrjun þessarar viku byrjuðu óveðurskýin að hrannast upp. Nú er staðan einfaldlega þannig að ef samningar takast ekki á næstu dögum þá stefnir í mesta ófrið á vinnumarkaði í tugi ára. Ef ekki nást samningar fyrir 6. júní blasir við að hátt í 70 þúsund manns fari í verkfall.

Á almenna markaðnum beinist kastljósið að annars vegar að samningum Starfsgreinasambands Íslands (SGS) við Samtök atvinnulífsins (SA), og hins vegar að viðræðum Flóabandalagsins, VR og Landssambandi íslenskra verslunarmanna (LÍV) við SA. Í fyrradag slitnaði upp úr viðræðum Flóans, VR og LÍV við SA og nýr fundur hefur ekki verið boðaður.

„Staðan er erfið," segir Þorsteinn. „Okkar tillögum hefur verið hafnað en ekkert nýtt komið á móti. Okkur þykir mjög alvarlegt að verkalýðsforystan láti varnaðarorð Seðlabankans, Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og flestra þeirra sérfræðinga sem hafa tjáð sig um stöðuna, sem vind um eyru þjóta. Kröfugerðin eins og hún er sett fram er til þess fallin að framkalla þá stöðu sem við erum komin í. Kröfugerðinni á síðan að fylgja fast eftir með beitingu verkfallsvopnsins og reyna að knýja hana í gegn í krafti þess. Þá verður ekki annað séð en að hér sé hreinn ásetningur um að valda efnahagslegu tjóni.

Efnahagslega tjónið af vitlausum kjarasamningum er miklu meira og langvinnara heldur en tjónið af verkfallsaðgerðum. Þess vegna höfum við engan annan kost í stöðunni en að takast á við þessi átök."

Samninganefndir SGS og SA funda í hádeginu. Drífa Snædal, framkvæmdastjóri SGS, segir að viðræðurnar séu í mjög svipuðum farvegi og viðræður Flóabandalagsins og VR við SA.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .