*

föstudagur, 16. apríl 2021
Innlent 16. september 2019 17:28

Samtök atvinnulífsins tvítug í dag

Á ársfundi SA í næsta mánuði fagna samtökin að 20 ár eru síðan Vinnuveitenda- og Vinnumálasamböndin sameinuðust.

Ritstjórn
Eyjólfur Árni rafnsson er formaður Samtaka atvinnulífsins sem eru akkúrat 20 ára í dag, en hann verður meðal framsögumanna þegar afmælinu verður fagnað á ársfundinum 17. október næstkomandi.
Haraldur Guðjónsson

Þann 15. september árið 1999 voru Samtök atvinnulífsins stofnuð og eru samtökin því orðin 20 ára í dag.

Tímamótunum verður þó ekki fagnað fyrr en 17. október næstkomandi á Ársfundi samtakanna í Hörpu, en þá fá gestir eintak af nýrri bók Guðmundar Magnússonar um sögu samtakanna þar sem rakin er saga vinnumarkaðar og efnahagslífs áranna 1999 til 2019.

„Samtök atvinnulífsins voru stofnuð haustið 1999 með samruna Vinnuveitendasambands Íslands og Vinnumálasambandsins. Jafnframt urðu nokkrar breytingar á vettvangi atvinnugreinafélaga,“ er m.a. haft eftir Guðmundi á vef SA.

„Stofnun Samtaka atvinnulífsins haustið 1999 var á sinn hátt tímanna tákn. Mikil gerjun hafði verið í íslensku samfélagi árin þar á undan. Stakkaskipti urðu á mörgum sviðum þjóðlífsins, ekki síst í starfsumhverfi atvinnuveganna.“

Í bókinni er einnig að finna snarpa samantekt á efni bókar Guðmundar Frá kreppu til þjóðarsáttar, þar sem er rakin saga VSÍ frá árinu 1934-1999.

„Rætur Samtaka atvinnulífsins liggja einkum í Vinnuveitendasambandinu, heildarsamtökum atvinnurekenda, sem starfaði á árunum 1934 til 1999. Frá VSÍ eru komnar margar þær hefðir og venjur sem starf SA byggir á. Með VSÍ eignuðust atvinnurekendur mikilvægan vettvang til að verja og gæta hagsmuna sinna, en þó lengst af í miklum mótbyr. Með þjóðarsáttinni 1990, sem VSÍ og Alþýðusamband Íslands, heildarsamtök verkalýðsfélaganna, höfðu forgöngu um urðu vatnaskil á íslenskum vinnumarkaði.“

Eins og áður segir verður afmælinu fagnað á ársfundinum sem fram fer milli 14:00 og 16:00 í Hörpu þann 17. október næstkomandi en meðal þeirra sem ávarpa fundinn eru  formaður Samtaka atvinnulífsins, Eyjólfur Árni Rafnsson, og forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir. Hægt er að skrá sig á fundinn á vef samtakanna.