Á aðalfundi Samtaka fiskvinnslu án útgerðar 17. nóvember sl., voru gerðar breytingar á samþykktum samtakanna og nafni þeirra jafnframt breytt í Samtök fiskframleiðenda og útflytjenda.

Í fréttatilkynningu vegna fundarins segir að Óskar Þór Karlsson hjá Ísfiski, sem verið hefur formaður samtakanna í ár, hafi beðist undan endurkjöri og að Gunnar Bragi Guðmundsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Nýfisks í Sandgerði hafi verið kjörinn formaður í hans stað.

Aðalfundurinn samþykkti samhljóða ályktun þar sem þeirri eindregnu áskorun er beint til sjávarútvegsráðherra að „hann beiti sér nú þegar fyrir því, að allur óunnin afli úr íslenskum skipum, sem ætlað er að ráðstafa til sölu á fiskmarkaði, verði seldur á innlendum fiskmörkuðum.“ Bent er á að umtalsvert magn af óunnum fiski hafi verið flutt úr landi á erlenda uppboðsmarkaði á undanförnum árum. Þrátt fyrir að hérlend fiskvinnslufyrirtæki búi við alvarlegan hráefnisskort og séu fyllilega samkeppnisfær við erlenda fiskkaupendur, hafi þau ekki fengið tækifæri til þess að bjóða í umræddan fisk. „Slík staða er algjörlega óviðunandi. Sala á innlendum mörkuðum er því réttmæt krafa, þar sem það er eina leiðin til þess að jafna möguleika íslenskra fiskkaupenda í samkeppni við erlenda aðila um kaup á íslenskum fiski til vinnslu,“ segir í ályktun Samtaka fiskframleiðenda og útflytjenda.

Fjárhagslegur aðskilnaður í rekstri útgerðar og fiskvinnslu í landi

Í fréttatilkynningunni segir að einnig hafi verið samþykkt ályktun þar sem ítrekuð er nauðsyn þess að áskilinn verði með lögum fjárhagslegur aðskilnaður í rekstri útgerðar og fiskvinnslu í landi, enda sé hann í fullu samræmi við fyrirmæli í samkeppnislögum og forsenda fyrir því að verðmyndun á fiski geti verið gegnsæ og eðlileg. „Slíkur aðskilnaður kemur ekki, eins og ranglega hefur verið haldið fram, í veg fyrir að útgerðarfyrirtæki geti ekki, að uppfylltum eðlilegum skilyrðum selt afla til fiskvinnslu í eigu sama aðila. Stjórnvöldum ber að skapa fiskvinnslufyrirtækjum í landinu jöfn og sanngjörn samkeppnisskilyrði, bæði í fiskkaupum og vinnslu svo og í sölu afurða á erlendum mörkuðum.“

Bjagað markaðskerfi í íslenskum sjávarútvegi

Í ávarpi sínu á fundinum sagði Óskar Þór Karlsson, fráfarandi formaður SFÚ, að markaðskerfi í íslenskum sjávarútvegi væri mjög bjagað, samkeppnismismunun ríkti vegna mikils aðstöðumunar milli fyrirtækja, bæði vegna gallaðrar löggjafar og skorts á löggjöf.

Í Fréttatilkynningunni er haft eftir Óskari: „Þessi mismunun er þjóðhagslega skaðleg og birtist í ýmsum myndum. Vel rekin fyrirtæki í höndum mjög hæfra manna, sem myndu blómstra við eðlileg skilyrði eiga undir högg að sækja og verða jafnvel að hætta rekstri vegna þess að samkeppnin er svo ósanngjörn. Slík staða er skaðleg vegna þess að hún felur í sér sóun á mannauði og þar með á verðmætum. Mikill aðstöðumunur og samkeppnisleg mismunun á milli fiskvinnslufyrirtækja er einnig skaðleg vegna þess að þeir aðilar sem njóta forgjafar í aðstöðu og skammta sjálfum sér fiskverð langt undir markaðverði, hafa síðan verið berir að því að beita undirboðum í samkeppni milli íslenskra fyrirtækja á erlendum mörkuðum. Þetta truflar markaðinn og verðmæti tapast. Með sanngjörnum leikreglum og heilbrigðu markaðskerfi mætti auka árlega verðmætasköpun í íslenskum sjávarútvegi um milljarða króna á hverju ári. Samtök fiskframleiðenda og útflytjenda gera þær kröfur til íslenskra stjórnvalda að þau uppfylli sjálfsagðar skyldur sínar á þessu sviði,“ sagði Óskar Þór Karlsson m.a. í ávarpi sínu.