Samtök fjármálafyrirtækja hafa lengi lagt áherslu á afnám stimpilgjalda og hvetja stjórnmálaflokka í aðdraganda kosninga til að taka málið upp, að því er segir í grein Guðjóns Rúnarssonar, framkvæmdastjóra Samtaka fjármálafyrirtækja, sem birtist á vef samtakanna .

Tilefni greinaskrifanna er pistill eftir Óðinn sem birtist í Viðskiptablaðinu þann 28. febrúar. Guðjón segir að þar leiði Óðinn að því líkum að ástæðu þess að stjórnvöld hafi ekki staðið við skuldbindingar sínar gagnvart ESA um afnám stimpilgjalda megi rekja til þess að Samtök fjármálafyrirtækja séu því mótfallin.

„Ástæðan fyrir að SFF hafa barist gegn stimpilgjöldum er að samtökin telja að afnám þeirra muni styrkja samkeppni á fjármálamarkaði og stöðu neytenda. Samtökin komu þessari áherslu fyrst á framfæri þegar þau leiddu starf skattahóps Samtaka atvinnulífsins sem gaf út skýrslu árið 2001 þar sem sett var fram krafa um afnám stimpilgjalda. Þessari baráttu hefur síðan verið fylgt eftir, m.a. í umsögnum um frumvörp sem lögð hafa verið fram á Alþingi og boðað afnám þessara gjalda og í samstarfi atvinnugreinasamtaka á vegum SA.

Þannig að hið rétta er að SFF hafa barist fyrir afnámi stimpilgjalda í áratug áður en að ESA gerði kröfu um slíkt sem forsendu þess að stofnunin myndi heimila ríkisaðstoð sem var veitt vegna endurreisnar bankakerfisins. ESA setti fram þá kröfu sumarið 2012.“