Samtök fjármálafyrirtækja (SFF) hafa sent frá sér fréttatilkynningu vegna tilmæla Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka íslands varðandi óskuldbindandi gengistryggingarákvæði.

Í fréttatilkynningunni segir að með tilmælunum hafi FME og Seðlabanki Íslands skorið úr um mikilvægt atriði sem óvissa ríkti um í kjölfar dóma Hæstaréttar.

SFF telja mikilvægt að óvissu hafi verið eytt en árétta að enn ríki óvissa um hvaða lánssamningar falli undir tilmælin. Jafnfram hvetja SFF stjórnvöld til að tryggja að sem allra fyrst verið skorið endanlega úr um þau óvissuatriði sem uppi eru og að skoða þurfi á næstu dögum hvort hægt sé að flýta því dómstólaferli með lagasetningu eða öðrum hætti.

Samtök fjármálafyrirtækja og aðildarfyrirtæki segja í fréttatilkynningunni að þau harmi þá erfiðu stöðu sem margir viðskiptavina þeirra eru í vegna erlendra lána og þá réttaróvissu sem um þau ríkir. Jafnframt binda þau vonir við að úr réttaróvissunni verði skorið hið fyrsta í Hæstarétti.