„Ef það er um einhvern misskilning að ræða, þá hlýtur hann að liggja hjá eigendum Reiknistofu bankanna og snúast um það hvernig eigi að meðhöndla upplýsingatækniviðskipti af hálfu bankanna,“ segir Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, í samtali við Morgunblaðið.

Eins og greint hefur verið frá sendu Samtök iðnaðarins (SI) kvörtun til Samkeppniseftirlitsins um að Reiknistofa bankanna (RB) nyti forskots á markaði fyrir upplýsingatækniþjónustu, þar sem RB geti selt þjónustu til fjármálafyrirtækja án þess að innheimta virðisaukaskatt. RB sendi frá sér fréttatilkynningu þar sem fram kom að það teldi kvörtunina byggða á misskilningi þar sem virðisaukaskattur legðist ekki á þjónustu sem veitt væri fjármálafyrirtækjum teljist hún eðlilegur og nauðsynlegur þáttur í starfsemi banka og fjármálafyrirtækja og veitt í tengslum við fjármálagjörninga.

Almar bendir á að í svörum RB hafi verið vísað til álits frá Ríkisskattstjóra. „Þá veltum við því fyrir okkur hverjir hafi fengið þetta álit og hverjir hafi lesið það, því að þetta eru nýjar upplýsingar fyrir okkur. Ef Reiknistofan hefur fengið þetta álit frá skattayfirvöldum, þá hefur það ekki verið gert opinbert fyrir aðra aðila sem eru að keppa á þessum „viðkvæma samkeppnismarkaði“ svo vísað sé í orð Samkeppniseftirlitsins.“