Samtök iðnaðarins (SI) og Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ) hafa viðurkennt að hafa haft um það samvinnu hvernig fyrirtæki innan vébanda samtakanna stóðu að verðbreytingum á forverðmerktum matvælum, í tengslum við lækkun á virðisaukaskatti úr 14% í 7% og afnám vörugjalda sem gildi tók þann 1. mars. 2007. Hafa samtökin fallist á að greiða samtals 3,5 milljónir króna í stjórnvaldssektir.

Viðurkenna bæði samtökin að á vettvangi þeirra hafi verið ákveðið hvernig standa skyldi að verðbreytingu í tengslum við þessa lækkun skatta, vegna vara sem verðmerktar eru hjá framleiðendum um leið og þeim er pakkað. Í því sambandi hafi verið ákveðið hvernig tilteknu tekjutapi yrði skipt á milli viðkomandi félagsmanna samtakanna. Hafa SI og SVÞ viðurkennt að hafa farið gegn samkeppnislögum að þessu leyti. Samtökin hafa hins vegar tekið fram að ásetningur hafi ekki staðið til þess að hindra samkeppni, einungis að skila verðlækkunum til neytenda.

Samkeppniseftirlitið hóf rannsókn á framangreindum aðgerðum SI og SVÞ í framhaldi af frétt sem birtist í fjölmiðlum í febrúar 2007, en þar kom fram hvernig aðilar innan SI og SVÞ myndu sameiginlega bregðast við umræddri skattalækkun.  Birti Samkeppniseftirlitið samtökunum andmælaskjal í nóvember 2007, þar sem komist var að þeirri frumniðurstöðu að þau hefðu brotið gegn samkeppnislögum.

SI leituðu til Samkeppniseftirlitsins í kjölfar þessa og óskuðu eftir því að sátt yrði gerð í málinu. Leiddu viðræður til þess að sátt var gerð við samtökin í lok liðins mánaðar.

Samkeppnistækifæri að engu gerð

“Það er mat Samkeppniseftirlitsins að aðgerðir SI og SVÞ hafi haft þau áhrif að það samkeppnislega tækifæri sem skapaðist fyrir aðila á markaðnum, s.s. til að veita hver öðrum verðsamkeppni í kjölfar umræddra breytinga á virðisaukaskatti, hafi í raun verið að engu gert. Breytingarnar í tengslum við lækkun á virðisaukaskatti hefðu getað leitt til enn meiri verðlækkunar og harðari samkeppni um verð á viðkomandi matvörum, ef ekki hefði komið til umræddra aðgerða SI og SVÞ.

Við mat á fjárhæð sekta var m.a. horft til þess að brotin voru framin á stuttu tímabili. Jafnframt var horft til þess að SI og SVÞ óskuðu eftir sáttarviðræðum og hafa undanbragðslaust játað brot á samkeppnislögum