„Þetta er alveg ótækt ástand. Það er ekki eitt heldur virðist allt falla að því að valda ótrúlegri seigju í öllum þessum málum," segir Jón Steindór Valdimarsson, fráfarandi framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins í samtali í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.

Ljóst er að verktakageirinn hefur farið mjög illa út úr efnahagshruninu og fjölmargir verktakar hafa m.a. lýst raunasögum sínum ef eignaupptöku kaupleigufyrirtækja á þeirra atvinnutækjum. Jón Steindór segir ekki ljóst hversu mikið að vanda verktakafyrirtækjanna megi rekja til stórhækkunar á gengistryggðum lánum.

„Nú blasir það við að mjög víða hafa menn orðið fyrir tjóni sem er annað og meira en að þeir hafi verið krafðir um of háar greiðslur. Í mörgum tilvikum hafa  menn misst tól og tæki út úr höndunum. Í öðrum tilvikum hafa menn orðið af verkum vegna þessa og í enn öðrum tilvikum hafa menn hreinlega farið á hausinn."

Jón segir að sjálfsagt megi þó deila um hversu stór þáttur erlendu lánin hafi verið í að illa fór hjá mörgum. Ljóst sé þó að stefnt geti í mörg mjög erfið dómsmál í kjölfar þess að Hæstiréttur kvað upp úr um ólögmæti slíkra lána á dögunum.

„Það er augljóst að það verður að hreinsa borðið. Við munum ganga eftir því að við fáum svör, " sagði Jón Steindór.

Nýjasta útspil Seðlabanka og Fjármálaeftirlitsins, sem sendu fjármálafyrirtækjum tilmæli um að þau beittu vöxtum Seðlabanka við endurútreikning lána samkvæmt Hæstaréttardómi en ekki samningsvöxtum, hefur þó síður en svo orðið til að hreinsa borðið.