Samtök iðnaðarins (SI)hafa óskað eftir því við Seðlabanka Íslands og bankastofnanir að temprun útstreymis gjaldeyris bitni ekki á íslenskum iðnaði sem í senn sparar og aflar þjóðinni nauðsynlegs gjaldeyris.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá SI.

Seðlabanki Íslands hefur sent frá sér tilmæli til innlánsstofnana um að þær tempruðu útstreymi gjaldeyris.

„Samtök iðnaðarins sjá ástæðu til þess að bregðast við þessum tilmælum og hafa þegar sent Seðlabanka Íslands bréf, sem og innlánsstofnunum, þar sem bent er á sameiginlega hagsmuni þjóðarinnar og iðnaðarins,“ segir í tilkynningunni.

Þá kemur fram að íslenskur iðnaður sparar gjaldeyri þegar hann keppir við og kemur í stað innflutts varnings og hann aflar gjaldeyris þegar hann flytur út vörur og selur á erlendum markaði.

„Þess vegna er afar brýnt að iðnaðurinn fá nauðsynleg aðföng og hráefni til starfsemi sinnar því við megum síst við því að starfsemi íslensks iðnaðar raskist við þessar aðstæður,“ segir í tilkynningunni.

Þá óska samtökin eftir því við Seðlabanka Íslands og innlánsstofnanir að gata íslensks iðnaðarins verði greidd að þessu leyti og að temprun útflæðis gjaldeyris nái ekki til aðfanga og hráefna íslensk iðnaðar.