Miklar áhyggjur eru uppi meðal iðnmeistara af því að svört atvinnustarfsemi aukist til muna í því mikla atvinnuleysi sem er að verða meðal iðnaðarmanna í landinu. Í frétt á heimasíðu Samtaka iðnaðarins kemur fram að kröfur um að tekið verði á þessum þætti séu háværar.

Það hafi komið fram á nær öllum fundum sem Samtök iðnaðarins hafa átt með forsvarsmönnum úr byggingariðnaði.

„Það er samdóma álit iðnmeistara í byggingariðnaði að svört vinna í greininni hafi aukist til muna eftir að lögum um endurgreiðslu virðisaukaskatts var breytt árið 1997," er haft eftir Ásgeiri Magnússyni forstöðumani skrifstofu SI á Akureyri. Þá fór endurgreiðsla á virðisaukaskatti af vinnu á byggingastað úr 100% í 60%.