Samtök iðnaðarins hafa sent Lýsingu, SP-fjármögnun, Avant og öðrum fjármálafyrirtækjum opið bréf. Í bréfinu kemur fram að dómur Hæstaréttar í gengistryggðu bílalánunum varði fjölmarga félagsmenn samtakanna, ekki síst þá sem eru í mannvirkjagerð.

Í bréfinu gera Samtök iðnaðarins þá kröfu að fjármögnunarfyrirtækin greiði til baka eða lækki höfuðstól þeirra lánasamninga sem voru gengistryggðir. Jafnframt ætlast samtökin til þess að fjármálafyrirtækin geri grein fyrir því á hvaða hátt þau ætli að bæta félagsmönnum SI afleitt tjón sem þeir hafa orðið fyrir vegna lánasamninganna.