Vefútgáfa breska blaðsins The Times birtir í dag bréf Jóns Steindórs Valdimarssonar framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins (SI) vegna greinar Bjarkar Guðmundsdóttur söngkonu sem birtist í blaðinu 28. október síðastliðinn.

Á vef SI kemur fram að nokkurs misskilnings gæti í grein Bjarkar sem rétt sé að leiðrétta.

„Í greininni gagnrýnir söngkonan stjórnvöld sem hún segir staðráðin í að eyðileggja náttúru Íslands,“ segir á vef SI.

„Reglur um umhverfismat eigi á hættu að vera hunsaðar í skjóli fjármálahrunsins til að ryðja braut fyrir tvö ný álver á Íslandi.“

Þá kemur fram á vef SI að Jón Steindór bendir í bréfi sínu á að Íslendingar hafi hálfrar aldar reynslu af notkun endurnýjanlegrar orku. Með hruni bankakerfisins á Íslandi sé áframhaldandi skynsamleg nýting nauðsynleg og það sé einmitt það sem Íslendingar séu að vinna að.

Einnig kemur fram að Jón Steindór greini frá því í grein sinni að álframleiðsla hér á landi sé umhverfisvænni en víðast hvar annars staðar í heiminum vegna þessara orkugjafa.

„Jón Steindór er sammála Björk um að styðja eigi frekar við íslenskt hugvit og umhverfisvæn nýsköpunar- og sprotafyrirtæki sem ekki hafi fengið nægilegan stuðning hingað til,“ segir á vef SI.

Bréf Jóns Steindórs var birt í styttri útgáfu á Times . Bréfið í heild sinni má nálgast hér .