Samtök Viðburðafyrirtækja voru stofnuð formlega þann 22. september sl. Stjórn samtakanna var kosin á stofnfundi og hana skipa Dagmar Haraldsdóttir, formaður frá Concept Events, Pétur Óli Gíslason frá Sagaevents og Jón S. Þórðarson frá PROevents sem meðstjórnendur og varamaður er Lárus Halldórsson frá Discover TrueNorth.

Tilgangur samtakanna er að stuðla að fagmennsku í viðburðageiranum, standa vörð um réttindi og hagsmuni greinarinnar og vera sameiginlegur málsvari gagnvart stjórnvöldum og almenningi. Tilgangi sínum hyggjast samtökin ná með því að samræma fagleg vinnubrögð, tryggja sýnileika á fyrirtækjamarkaði og stuðla að menntun og fræðslu innan greinarinnar hérlendis.

Dagmar Haraldsdóttir segir að undanfarin ár hafi verið mikill uppgangur í viðburðahaldi á Íslandi. Fyrirtæki og stofnanir hafi nú áttað sig á hagkvæmni þess að ráða fagaðila með þekkingu og reynslu á sínu sviði til að framkvæma viðburði þar sem saman er kominn fjöldi fólks og þar sem gæta þarf að öryggi gesta og þátttakenda í hvívetna.

Jafnframt segir hún að erlendir viðskiptavinir hafi áttað sig á því að viðburðageirinn á Íslandi sé orðinn þroskaður og tilbúinn til að taka á móti og skipuleggja stóra alþjóðlega viðburði þar sem við höfum víðtæka þekkingu, aðstöðu og tækjabúnað til að takast á við slík verkefni. Þessi verkefni hafi gjarnan velt háum upphæðum og skilið mikið eftir sig á Íslandi.

Fagaðilar geti tryggt öryggi

Síðastliðna mánuði hafi viðburðafyrirtækin hinsvegar átt verulega undir högg að sækja og nú sem aldrei fyrr sé mikilvægt fyrir greinina að standa saman og sjá til þess að starfsemin haldi velli.

Því þurfi nú að hennar mati að sjá til þess að viðburðir framtíðarinnar verði skipulagðir og framkvæmdir af fagaðilum sem hafa þekkingu og reynslu m.a. til að tryggja öryggi gesta, gæta að sóttvörnum og sjá til þess að allir viðburðir fari rétt fram.

„Það vita allir að heimurinn verður breyttur eftir Covid-19, er nú þegar breyttur, en hinsvegar erum við félagsverur sem þurfum á hvert öðru að halda, fagna og gleðjast saman, en munum eflaust gera það með breyttum áherslum og því er mikilvægt að sú kunnátta sem er nú til staðar glatist ekki,“ segir Dagmar.