Samúel Guðmundsson hefur sagt sig úr bankaráði Landsbankans eftir aðeins 8 mánaða setu sem aðalmaður, en hann var þar á undan varamaður í tæp 2 ár.

Ástæðan er umdeild lokun veitingastaðarins Rústik – en Samúel var stjórnarformaður rekstrarfélags staðarins þar til í september – sem lokaði dyrum sínum í síðustu viku, og var starfsfólki tilkynnt að það fengi ekki greidd laun fyrir októbermánuð.

Launin voru þó greidd nokkrum dögum síðar eftir umfjöllun fjölmiðla, þar sem meðal annars var bent á tengsl Samúels við félagið og setu hans í bankaráði Landsbankans.

„Samúel átti hlut í rekstrarfélagi veitingahúss sem lenti í rekstrarerfiðleikum. Hann taldi rétt við þessar aðstæður að segja sig úr bankaráði, enda gæti áframhaldandi seta hans orkað tvímælis og dregið úr trausti til bankaráðs og Landsbankans. Ég virði þessa ákvörðun, óska honum velfarnaðar og þakka honum fyrir gott samstarf undanfarin ár,“ er haft eftir Helgu Björku Eiríksdóttur, formanni bankaráðs.