Þýskir saksóknarar hafa kært nokkra menn úr fjármálageiranum þar í landi vegna gruns um að hafa stundað peningaþvætti fyrir Leonid Reiman, fyrrverandi fjarskiptaráðherra Rússlands. Háar upphæðir eru um að ræða, 150 milljónir dala, jafnvirði 18 milljarða króna.

Reiman var ráðherra fjarskiptamála í Rússlandi á árabilinu 1999 til 2008.

© Aðsend mynd (AÐSEND)

Rannsókn á peningaþvættinu hefur staðið yfir um sex ára skeið.

Rannsóknin snýr meðal annars að því að Leonid Reiman er gefið að sök að hafa selt fjarskiptatæki rússneska ríkisins til aflandsfélaga og ekki upplýst hver eigandi þeirra hafi verið. Þá er talið að samverkamenn Reimans hjá útibúi Commerzbank í Austur-Evrópu hafi unnið með honum en eignirnar voru í sjóði sem bankinn hélt utan um á árabilinu 1996 til 2001. Danski lögfræðingurinn Jeffrey Galmond, sem ættir á að rekja til Eistlands, var skráður fyrir félaginu.

Í kæru þýsku saksóknaranna er því haldið fram að Galmond hafi verið strengjabrúða Reimans sem ráðherrann hafi stýrt í raun og veru.

Fram kemur í umfjöllun bandaríska stórblaðsins Wall Street Journal af málinu að Galmond hafi ákvallt neitað þessum ásökunum á hendur sér og hafa haldið því staðfastlega fram að hann hafi átt eignirnar sem Reiman seldi.

Í umfjöllun Wall Street Journal um málið kemur fram að Reiman hafi um langt skeið verið vinur Vladimírs Pútín, forsætisráðherra Rússland.

Danski lögfræðingurinn Galmond kemur fyrir í skýrslu rannsóknarfyrirtækisins Kroll um Björgólfsfeðga frá árinu 2006. Í skýrslunni kom fram að hugsanlega hafi Reiman eða einhverjir honum tengdir verið á meðal hluthafa í bjórverksmiðjunni Bravo. Tengslin hafi verið í gegnum Galmond, sem vann með Björgólfsfeðgum í Rússlandi, svo sem að sölunni á bjórverksmiðjunni Bravo til Heineken árið 2002.