Miklir hagsmunir eru undir fyrir íslenskt atvinnulífs þegar Bretland semur við Evrópusambandið um útgöngu Breta úr sambandinu. Margoft hefur verið sagt frá því að Ísland þurfi að semja um áframhaldandi markaðsaðgang ef viðræður Bretlands og ESB nái ekki til EES-samningsins – því eru gífurlegir hagsmunir í húfi.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir í samtali við Viðskiptablaðið að Brexit sé forgangsmál. „Við viljum helst ná betri árangri en við höfum gert til þessa hvað varðar markaðsaðgang að Bretlandi. Skilaboð breskra stjórnvalda hafa verið mjög skýr. Ég er búinn að fá tvö bréf frá Boris Johnson, annars vegar þegar ég tók við og hins vegar eftir kosningar í Bretlandi. Við höfum ekki fengið önnur skilaboð en að menn vilji halda þeim góðu viðskiptasamskiptum sem hafa verið milli ríkjanna tveggja,“ segir hann.

Áherslurnar kynntar í haust

Utanríkisráðherra segir að á haustmánuðum muni ráðuneytið kynna Brexit málin, eins og þau snúa að þeim. Hann segir að stjórnvöld leggi mikla áherslu á það að vinna málin í samstarfi við hagsmunaaðila. „Þarna er samvinna alveg lykilatriði,“ segir Guðlaugur Þór.

„Það sem við erum að gera er að kortleggja hagsmuni og búa okkur undir mismunandi sviðsmyndir. Við höfum átt samtöl við bæði Bretana og Evrópusambandið. Það sem ESB semur um gæti haft áhrif á okkur. Þetta mál er í algjörum forgangi. Við viljum helst ná betri árangri en við höfum gert fram til þessa hvað varðar markaðsaðgang að Bretlandi,“ bætir hann við.