Íslensku tæknifyrirtækin Skaginn 3X, Nautic ehf., Kælismiðjan Frost ehf., Brimrún ehf., Naust Marine ehf., og Verkfræðistofan Skipatækni ehf. hafa ákveðið að venda kvæði sínu í kross og stofna sameiginlegt markaðsfyrirtæki. Framkvæmdastjóri þess er Haraldur Árnason. Hann telur samvinnuna geta fleytt fyrirtækjunum enn lengra í heimi skipalausna í framtíðinni. Markmiðið er að nýta kraftana vel og ná fótfestu á erlendum mörkuðum, ekki síst í Rússlandi.

„Hugmyndin kviknaði á milli þessara sex fyrirtækja um nánara samstarf fyrir nokkru síðan. Smám saman þróaðist þetta í að ráða framkvæmdastjóra í verkefnið. Mér leist mjög vel á hugmyndina, fannst þetta spennandi viðfangsefni enda hef ég trölla trú á íslenskum tæknifyrirtækjum sem starfa í sjávarútvegsgeiranum og mörg að gera mjög góða hluti,“ segir Haraldur.

Hann segir hugmyndina á bak við fyrirtækið tvenns konar. „Annars vegar að Knarr Maritime verði vörumerki fyrir fullbúin fiskiskip og hins vegar markaðsfyrirtæki í tilbúnum skipalausnum til veiða og vinnslu. Þá er hugmyndin að vera fleiri saman í liði til þess að auka möguleikana, skapa góða liðsheild og koma vörunum okkar enn betur á framfæri.“

Verðugir keppinautar

Haraldur segir að það sé í sjálfu sér ekkert fast í hendi hvernig hlutunum verði háttað hjá þessu nýstofnaða fyrirtæki, það sé í þróun en markmiðin séu skýr; að verða leiðandi fyrirtæki í tilbúnum skipalausnum til veiða og vinnslu. Hann tekur þó fram að fyrirtækin sex haldi áfram að vinna eins og þau hafa alltaf gert og að þetta sé í raun einn aukahlekkur í keðjunni í sölu og markaðssetningu fyrirtækjanna.

„Ef kúnninn vill kaupa skip, aðra teikningu af skipi eða annan vinnslubúnað og svo framvegis, þá seljum við bara það sem hann vill úr okkar pakka og látum þar við sitja. Við munum alltaf reyna að selja okkar pakka, en við ætlum ekkert að stoppa fyrir hina ef þeir ná að selja,“ segir Haraldur.

„Við erum alveg opnir fyrir því að fleiri fyrirtæki komi inn í þetta samstarf sem hefðu áhuga á því. Í þessum heimi erum við að slást við verðuga keppinauta eins og t.d í Noregi. Það er alltaf erfiðara fyrir smærri fyrirtæki að komast inn í þessi stóru verkefni, það er staðreynd. Þessir stóru aðilar erlendis hafa haft sína samstarfsaðila til margra ára og hafa mikla reynslu. Þetta verður ekkert auðvelt,“ segir Haraldur, „en við erum full bjartsýni og höfum trú á verkefninu. Ég tel að samvinnan muni fleyta okkur lengra áfram en að vera hver í sínu horni,“ bætir hann við.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .