Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherrann Sigurður Ingi Jóhannsson hefur lagt fram frumvarp til laga um samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir. Er markmið laganna að auka verulega fjármagn til vegaframkvæmda og mæta mikilli þörf fyrir fjárfestingar í samgöngum, bæta umferðaröryggi og stytta og bæta vegtengingar milli byggða. Áætlað er að samvinnuverkefnin geti skapað allt að 4.000 ársverk. Greint er frá þessu á vef samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins .

„Það er ljóst er að jafn umfangsmiklar framkvæmdir, eins og samvinnuverkefnin boða, skapa mikinn fjölda ársverka, bæði hjá verktökum en ekki síður hjá ráðgjöfum og hönnuðum. Áætla má að í heild verði til á bilinu 3.000-4.000 ársverk. Þau mynda einnig sterkan hvata til nýsköpunar sem getur lækkað kostnað og stytt framkvæmdatíma," er haft eftir Sigurði Inga í tilkynningu ráðuneytisins.

„Öll verkefnin fela í sér styttingu vega ásamt því að stuðla að bættu umferðaröryggi. Vegastytting minnkar ferðatíma fólks og dregur úr flutningskostnaði fyrir fyrirtæki. Síðast en ekki síst felst í þessu umtalsverður umhverfisávinningur með minni losun gróðurhúsalofttegunda og annarrar umferðartengdrar mengunar.

Samvinnuverkefnin bætast við allar vegaframkvæmdir sem fjármagnaðar eru með hefðbundnum hætti á fjárlögum en í nýjustu samgönguáætlun voru framlög aukin um fjóra milljarða á ári næstu fimm árin miðað við fyrri áætlanir," segir ráðherra jafnframt.

Sundabraut meðal áætlaðra samvinnuverkefna

Með lögunum verði Vegagerðinni heimilt, að undangengnu útboði, að eiga samvinnu við einkaaðila um fjármögnun, hönnun, undirbúning og framkvæmdir við sex afmörkuð verkefni ásamt viðhaldi og rekstri í tiltekinn tíma. Þá verði heimilt að fjármagna samvinnuverkefni að hluta eða öllu leyti með gjaldtöku af umferð. Gjaldtaka skuli þó ekki hefjast fyrr en framkvæmdum lýkur og stendur að hámarki í 30 ár.

Í öllum framkvæmdunum sem um ræðir muni vegfarendur hafa val um aðra leið og greiða ekki gjald á þeirri leið. Þær stuðli ennfremur allar að auknu umferðaröryggi. Í lok samningstíma teljist mannvirki eign ríkisins án sérstaks endurgjalds.

Þau verkefni sem lagt er til að verði unnin sem samvinnuverkefni eru:

  • Hringvegur norðaustan Selfoss og brú á Ölfusá
  • Hringvegur um Hornafjarðarfljót
  • Axarvegur
  • Tvöföldun Hvalfjarðarganga
  • Hringvegur um Mýrdal og jarðgöng í Reynisfjalli
  • Sundabraut

Af þessum verkefnum er brú yfir Hornafjarðarfljót fullhannað og hægt að hefja framkvæmdir á árinu og brú yfir Ölfusá er á lokastigi í hönnun.

Margir kostir faldir í aðkomu einkafyrirtækja að uppbyggingu samgöngukerfis

Í frétt samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins segir að ýmsar ástæður séu fyrir því að leitað hafi verið til einkafyrirtækja um að koma í auknum mæli að uppbyggingu samgöngukerfa. Í fyrsta lagi geti samvinnuverkefni verið leið til þess að viðhalda fjárfestingu í erfiðu árferði. Í öðru lagi væru þau leið til að virkja kosti einkaframtaks í samgöngum, nánar tiltekið nýsköpun og sveigjanleika í uppbyggingu og viðhaldi vegakerfisins. Í þriðja lagi geti þau stuðlað að því að skattgreiðendur fái meira fyrir peningana sína, þjónustan verði betri og að áhættuskipting milli hins opinbera og einkaaðila verði hagfelld. Að lokum hafi reynsla erlendis frá sýnt að einkaaðilar ná að jafnaði að ljúka við framkvæmdir á styttri tíma en opinberir aðilar, ekki síst þar sem opinberri fjármögnun sé oft dreift á mun lengri tíma en þörf er á framkvæmdarinnar vegna.