Viðskiptanefnd Alþingis leggur til að frumvarp til laga um sértryggð skuldabréf verði samþykkt. Hún leggur þó til tvær breytingar á frumvarpinu. Í fyrsta lagi er lagt til breytt viðmið um það frá hvaða degi beri að reikna þann sex mánaða frest sem Fjármálaeftirlitið hefur til að afgreiða umsókn um leyfi til að gefa út sértryggt skuldabréf. Telur nefndin eðlilegast að fresturinn byrji að líða þegar þegar eftirlitinu hefur borist fullbúin umsókn.

Í öðru lagi leggur nefndin til þá breytingu að í stað þess að Fjármálaeftirlitið skipi sjálfstæðan skoðunarmann skipi útgefandi skoðunarmanninn en Fjármálaeftirlitið staðfesti skipun hans. Markmið frumvarpsins er að skapa umgjörð svo að viðskiptabankar, sparisjóðir og lánafyrirtæki geti hlotið leyfi Fjármálaeftirlitsins til að gefa út sértryggð skuldabréf sem hafi sérstakan tryggingar- og fullnusturétt í safni eigna sem tilheyra útgefanda.