Ríkisstjórnarflokkarnir hafa samþykkt að íslenska ríkið ábyrgist greiðslu upp að 20.887 evrum til eigenda erlendra innistæðureikninga í íslenskum bönkum.

Heildarskuldbindingin er talin nema allt að 600 milljörðum króna. Endanleg upphæð mun ráðast af því verði sem fæst fyrir erlendar eignir bankanna.

Að langmestu leyti er hér um að ræða innistæður á Icesave-reikningum Landsbankans. Miðað við margítrekaðar yfirlýsingar forsvarsmanna Landsbankans ættu þær eignir að gera meira en duga fyrir öllum innistæðum. Þingflokkur Samfylkingarinnar samþykkti ábyrgðina á miðvikudag.

Sama dag áréttaði þingflokkur sjálfstæðismanna að Geir H. Haarde forsætisráðherra hefði óskorað umboð til að afgreiða málið.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins liggur fyrir að Íslendingar semji með þessum hætti um lyktir málsins þótt það hafi ekki verið gert með formlega.

Að fenginni þessari niðurstöðu munu Bretar aflétta ákvæðum hryðjuverkalaga og þar með fá Íslendingar umráð yfir eignum Landsbankans og geta notað andvirði þeirra til að greiða út innistæðurnar.

Þá munu Íslendingar losna úr þeirri blindgötu sem þeir hafa verið í við öflun erlends lánsfjár vegna óvissu um ábyrgð á Icesave-reikningunum.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins var það mat ríkisstjórnarinnar að fullljóst væri orðið að Íslendingar þyrftu að takast þessa ábyrgð á hendur til þess að eiga nokkurn kost á lánveitingum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, öðrum Norðurlöndum eða löndum Evrópusambandsins.

Alþjóðasamfélagið hafi einfaldlega hafnað þeim ásetningi Íslendinga að hafa fyrirvara á því hvað í alþjóðlegum skuldbindingum um innistæðutryggingar fælist. Bent er á að bankar frá um 100 þjóðríkjum séu starfandi í Bretlandi. Bretar hafi af þeim sökum talið að aðferð Íslendinga skapaði hættulegt fordæmi fyrir fjármálastarfsemi í því landi.

Einnig var talið auka óvissu við núverandi aðstæður á fjármálamörkuðum, þar sem traust er ekki fyrir hendi, að efna til alþjóðlegra málaferla um gildi innistæðutrygginga.