Skuldir sveitarsjóðs Sandgerðisbæjar námu um 411% af heildartekjum ársins 2010 og staðan var enn þegar fyrirtæki og stofnanir í eigu bæjarins voru teknar með (samstæða) en þá hækkaði skuldahlutfallið í 455%.Bærinn státaði af þeim vafasama heiðri að vera skuldsettasta sveitarfélag landsins og jafnvel á Álftanesi, sem mikið hefur verið í fréttum vegna skuldamála, eru skuldir á hvern íbúa minni en tekið skal fram að Sandgerði á um einn milljarða í lausu fé og hefur því haldið fjárhagslegu sjálfstæði sínu, öfugt við Álftanes.

Sigrún Árnadóttir, bæjarstjóri, dregur enga dul á að staða Sandgerðis sé erfið: „Já, skuldastaðan er mjög slæm. Við höfum auðvitað verið að gera ýmsar breytingar til þess að draga úr rekstrarkostnaði en skuldir og skuldbindingar eru að sliga Sandgerði. Um það bil helmingurinn af skuldum okkar eru skuldbindingar gagnvart Eignarhaldsfélaginu Fasteign og hinn helmingurinn er að stórum hluta skuldir við Lánasjóð sveitarfélaga. Greiðslubyrðin er þung og skuldirnar eru eiginlega meiri en sveitarfélag af þessari stærðargráðu ræður vel við."

Nánar er fjallað um málið í nýjasta eintaki af Viðskiptablaðinu. Áskifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð.