Fjárhagsáætlun Sandgerðisbæjar var samþykkt samhljóða á bæjarstjórnarfundi í vikunni. Sandgerðisbær hefur glímt við erfiða fjárhagsstöðu undanfarin ár og í fyrra skuldaði sveitarfélagið 313 prósent af tekjum sínum.

Í nýjum sveitarstjórnarlögum, sem tóku gildi í fyrra, er lögð sú lína að hlutfall heildarskulda af tekjum sveitarfélaga megi ekki fara yfir 150 prósent. Þó þriðjungur allra sveitarfélaga sé yfir þessum mörkum er staðan verst í Sandgerðisbæ.

Í bókun bæjarstjórnar kemur fram að gjaldskrár hækki í takt við verðlag og að jafnaði sé hækkunin um 3,9%. Enn fremur segir að lykiltölur fjárhagsáætlunar séu í samræmi við 10 ára áætlun sem gerð var í ár. Útlit sé fyrir að jafnvægi í rekstri náist á árinu 2017 og að árið 2021 verði skuldahlutfallið "vel innan við 150%".

Bæjarstjórnin samþykkti að hækka útsvarið úr 14,48% í 14,52% en það er gert með fyrirvara um að lögum um tekjustofna sveitarfélaga verði breytt á Alþingi fyrir áramót.