Sameining Sandgerðis og Garðs var samþykkt í íbúakosningu í gærkvöldi, en niðurstöður kosninganna lágu fyrir á tólfta tímanum í gærkvöldi. Sam­einað sveit­ar­fé­lag telur um 3.200 manns og verður 18. fjöl­menn­asta sveit­ar­fé­lag lands­ins, eða álíka fjöl­mennt og Grinda­vík.

Í Garði samþykktu 71,5% íbúa sameininguna en 28,5% voru á móti. Á kjörskrá voru 1.134 og kusu 601 eða 53% þeirra sem voru á kjörskrá.

Í Sandgerði var sameiningin samþykkt með 55,2% atkvæða en 44,8% voru á móti. Á kjörskrá voru 1.200 manns og kusu 662 eða 55,2%. Þrír seðlar voru auðir og einn ógildur.

„Þá er það staðfest að nýtt og öflugt sveitarfélag á Suðurnesjum er að verða til. Það eru spennandi tímar framundan,” sagði Ólafur Þór Ólafsson, formaður bæjarstjórnar í Sandgerði, þegar úrslitin voru kynnt.

Níu manna bæjarstjórn verður kosin í maí 2018 og í framhaldinu tekur hið nýja sveitarfélag til starfa. Íbúar fá þá að kjósa um nafn á nýju sveitarfélagi.

Jöfnunarsjóður sveitarfélaga veitir nýja sveitarfélaginu 100 milljóna króna framlag til endurskipulagningar stjórnsýslu og þjónustu og 294 milljóna króna framlag til skuldajöfnunar. Einn bæjarstjóri verður fyrir sameinað sveitarfélag.

Sam­starfs­nefnd var skipuð í fyrra­haust til að kanna kosti og ókosti sam­ein­ing­ar. Í sept­em­ber í ár var grein­ing KPMG á áhrif­um sam­ein­ing­ar gef­in út. Þar seg­ir meðal ann­ars að með sam­ein­ingu yrði til fjár­hags­lega sterkt sveit­ar­fé­lag og yrði fjár­hags­staða þess betri en að meðaltali á landsvísu.