Rekstrarniðurstaða Sandgerðisbæjar samkvæmt samanteknum ársreikningi A og B hluta, var neikvæð um 91,7 milljón krónur en rekstrarniðurstaða A hluta var neikvæð um 19,7 milljónir króna samkvæmt ársreikningi. Eigið fé sveitarfélagsins í árslok 2006 nam 400,7 milljónir króna samkvæmt efnahagsreikningi, en eigið fé A hluta 749,8 milljónir króna. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Starfsemi Sandgerðisbæjar er skipt í tvo hluta. Annars vegar A hluta sem er starfsemi sem að hluta eða öllu leyti er fjármögnuð með skatttekjum og hins vegar B hluta sem eru fyrirtæki að hálfu eða meirihluta í eigu sveitarfélagsins og eru rekin sem fjárhagslega sjálfstæðar einingar.

Rekstrartekjur sveitarfélagsins á árinu 2005 námu 773,4 milljónir króna en á árinu 2006 urðu þær 879,9 milljónir króna samkvæmt ársreikningi fyrir A og B hluta, en þar af námu rekstrartekjur A hluta 753,0 milljónir króna. Álagningarhlutfall útsvars var 12,7% en lögbundið hámark þess er 13,03%.

Fjölgun íbúa var í Sandgerðisbæ á síðasta ári en á árinu 2005 var hún 9.8% en er nú 8,3%.

Í tilkynningu segir að mikil uppbygging er í sveitarfélaginu hjá einstaklingum og fyrirtækjum og munar þar mestu uppbygging við Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Um 120 íbúðir eru í byggingu og eru miklar framkvæmdir við vegagerð samfara uppbyggingunni. Fyrirhuguð er viðbygging við íþróttahús og nýbygging 25m útisundlaugar á árunum 2007 og 2008.