Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins, segir að með uppsetningu Jólakattarins sé Reykjavíkurborg að halda í heiðri viðhorfum um að það beri að refsa fátæku fólki fyrir að vera á þeim stað sem það er. Þetta sagði hún í facebook-færslu fyrr í dag .

Hún segir fátækt ógnvekjandi óvætt sem margir þurfi að eiga við alla mánuði ársins. Það sé á ábyrgð borgarinnar, sem „sennilega stærsta láglaunavinnustað landsins“, að mörg börn alist upp við fátækt.

Þrátt fyrir það sé ákveðið að hampa jólakettinum opinberlega án þess að minnast á fátækt, en Sanna stingur upp á að til að draga fátækt fram í dagsljósið bjóði borgin fólki frá Pepp, samtökum fólks í fátækt, að koma og segja frá reynslu sinni.

Sanna segist ekki ná því hvað sé „svona flissandi skemmtilegt“ við það að kveikja á jólakettinum. Frekar væri hún til í að kveikja í nýfrjálshyggjunni.