Yfirmaður FBI, James Comey, segist sannfærður um að Norður-Kórea hafi verið á bak við tölvuárás á stórfyrirtækið Sony.

Comey sagði í vikunni að hótanir gegn Sony hefðu verið raktar til IP talna sem eingöngu Norður- Kóreumenn noti. Þetta sagði hann á tölvuöryggisráðstefnu í Fordham háskóla í New York.

Comey segir að Norður-Kóreumenn hafi reynt að hylja slóð sína en ekki í öllum tilfellum. Hann spáði því jafnframt að fleiri tölvuárásir af þessu tagi yrðu gerðar á næstunni.

Tölvuárásin á Sony var gerð í lok síðasta árs og hafði miklar afleiðingar í för með sér, meðal annars á útgáfu myndarinnar The Interview, þar sem Norður-Kórea kemur við sögu.