Giorgos Stathakis, efnahagsráðherra Grikklands, segir í viðtali við BBC að hann telji að Grikkjum verði bjargað frá gjaldþroti. Segir hann að eftirgjöf stjórnvalda í ákveðnum málaflokkum hafi sannfært lánadrottna um að koma til aðstoðar.

Stathakis býst við því að stjórnvöld Evrópusambandsríkjanna muni í dag senda frá sér yfirlýsingu þar sem fram mun koma að sterkur grundvöllur sé fyrir því að ná samkomulagi við Aþenu um að halda áfram björgunaraðgerðum. Muni grísk stjórnvöld í kjölfarið fá nauðsynlegt 7,2 milljarða evra lán.

Stathakis viðurkennir að það muni taka örfáa daga að vinna úr öllum smáatriðum áður en að samkomulagið verður formlegt. Hann er þó vongóður um að Grikkir muni geta borgað 1,6 milljarða evra afborgun sína til Alþjóðagjaldeyrissjóðinn á gjalddaga um mánaðamótin, og þannig koma í veg fyrir gjaldþrot.

Stathakis sagði að grísk stjórnvöld ætli að auka tekjuöflun sína með nýjum sköttum á fyrirtæki og efnaða einstaklinga, auk þess sem virðisaukaskattur verður hækkaður á ákveðnum vörum.

Hann bætti því þó við að stjórnarflokkurinn Syriza, undir stjórn Alexis Tsipras, hefði komist hjá því að svíkja kosningaloforð sín. Því verður enginn frekari niðurskurður á ellilífeyri eða launum í opinbera geiranum.