*

mánudagur, 6. júlí 2020
Innlent 30. maí 2019 19:09

Sannfærður um vöxt á næsta ári

Forstjóri Brimborgar telur botninum senn náð í sölu nýrra bíla eftir samdrátt frá upphafi síðasta árs.

Júlíus Þór Halldórsson
Egill Jóhannsson hefur unnið hjá Brimborg í 42 ár, og gegnt svo til hverju einasta starfi innan fyrirtækisins.
Haraldur Guðjónsson

Eftir metsölu nýrra bíla síðustu ár er verulegs samdráttar farið að gæta samhliða versnandi efnahagsaðstæðum, enda bílasala afar viðkvæm fyrir hag- og gengissveiflum. „Bílasala byrjaði aðeins að minnka í byrjun síðasta árs. Samdrátturinn var um 5-10%, sem telst hóflegt hér á landi, en þættu hamfarir í Evrópu eða Bandaríkjunum,“ segir Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborgar. „Þegar líða tók á síðasta sumar var samdrátturinn kominn í 15-20%, og í september var hann kominn yfir 30%. Um jólin hafði salan dregist saman um helming frá síðustu jólum.“

Endast ekki endalaust
Það sem af er þessu ári hafa nýskráningar nýrra bíla svo dregist saman um tæp 40%, en allar ofangreindar tölur eiga við um innlenda markaðinn í heild sinni. Egill er þó bjartsýnn á að botninum verði náð í eða upp úr sumrinu, og næsta ár verði betra. „Við erum að sjá að heildarmarkaðurinn núna á þessu ári gæti farið í 15 þúsund bíla. En ég sé fyrir mér að það sé ákveðinn botn. Ég eiginlega alveg sannfærður um að við verðum með vöxt á næsta ári. Ferðaþjónustan verður þá búin að taka til – það verður búið að leysa Wow air og MAX 737 vandamálið, fleiri fyrirtæki farin að fljúga inn – auk þess sem vextir eru að lækka og stjórnvöld byrjuð að efna loforð um innviðauppbyggingu. Þörfin er alveg til staðar, þjóðinni er alltaf að fjölga, og akstur samkvæmt Vegagerðinni fer sívaxandi. Það er verið að nota þessa bíla, og þeir endast ekki endalaust. Við getum ekkert verið að selja 15 þúsund bíla á ári mörg ár í röð með 400 þúsund bíla flota. Þá endum við bara í ónýtum bílum.“ Landsmenn eru þó langt því frá hættir að kaupa sér bíla. Samhliða samdrætti í sölu nýrra bíla hefur markaðurinn með notaða bíla tekið vel við sér. „Í fyrra sáum við um 40% aukningu í sölu notaðra bíla, og sú þróun heldur áfram í ár. Það er alveg fólk sem vill kaupa sér bíla, en það er af einhverjum ástæðum svona að hinkra með að kaupa nýja.“

Sveiflurnar gera bransann erfiðan
Aðspurður segir Egill að það taki gengisbreytingar almennt talsverðan tíma að seytla inn á eftirmarkað með bíla, þótt sumir söluaðilar, þar með talin Brimborg, taki strax mið af þeim. „Það er töf á smiti gengisbreytinga út í verð notaðra bíla. Hjá okkur erum við með reiknireglu til að verðleggja notaða bíla, sem tekur mið af verði sambærilegs nýs bíls, auk aldurs og aksturs.“

Egill segir vandamálið við miklar sveiflur í innkaupaverði og mikla næmni viðskiptavina fyrir verðlagningu enn stærra þegar horft sé til þess hve erfitt er að aðlaga reksturinn breyttum aðstæðum til skamms tíma. „Bílabransinn er erfiður að mörgu leyti. Þú ert með langan aðfangatíma á bílum. Þú ert með mikinn fastan kostnað, enda erfitt að minnka sýningarsali og þess háttar ef salan minnkar. Það er því mjög erfitt að aðlaga sig að því þegar salan dregst hratt saman. Hin hliðin á þeim peningi er svo auðvitað að menn veigra sér við að stækka hratt þegar vel gengur, en þá er hættan að allt yfirfyllist og viðskiptavinir verði óánægðir. Gefi menn svo undan og ráðist í stækkunarframkvæmdir getur svo vel verið að þegar þeim loks lýkur verði salan þegar búin að dragast saman aftur.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.