„Eðlilegt og sanngjarnt," er að upplýsingar um skattgreiðslur einstaklinga séu ekki birtar opinberlega, undir nafni eða með öðrum persónugreinanlegum upplýsingum. Þetta segir Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata í þingsályktunartillögu sem hann hefur lagt fram á Alþingi.

„Með breytingartillögunni er lagt til að opinber birting og framlagning álagningar- og skattskráa landsmanna verði lögð af í þeirri mynd sem hún er nú. Með þingsályktunartillögu þessari er lagt til að landsmönnum verði tryggður aðgangur að upplýsingum um álagningu og skattgreiðslur landsmanna, þó þannig að þær verði ópersónugreinanlegar," segir í þingsályktunartillögunni.

Tryggja þarf friðhelgi einkalífs

Í tillögu Jóns Þórs segir að núverandi fyrirkomulag tryggi ekki á fullnægjandi hátt friðhelgi einkalífs. Þar að auki sé ekki þörf á birtingu upplýsinganna lengur, enda séu stofnanir færar um að mæla ýmsa þætti í tengslum við laun og skattgreiðslur án þess að upplýsingarnar séu persónugreinanlegrar.

„Í 3. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar kemur fram að ekki megi takmarka friðhelgi einkalífs nema brýna nauðsyn beri til vegna réttinda annarra. Heimild til takmörkunar á þessum stjórnarskrárvarða rétti til friðhelgi einkalífs er því sérlega þröng, þar sem talað er um brýna nauðsyn. Að sjálfsögðu er nauðsynlegt að hægt sé að rannsaka skattsvik og undanskot. Nú höfum við til þess rótgrónar stofnanir í samfélaginu. Ef þær geta ekki sinnt eftirliti sínu með fullnægjandi hætti, ber að styrkja þessar stofnanir frekar en að fela almennum borgurum eftirlitið og fórna stjórnarskrárvörðum réttindum borgaranna," segir jafnframt.