Hlutabréf í sérhæfða yfirtökufélaginu (Spac) Digital World Acquisition hækkaði um 357% í gær eftir að tilkynnt var um að félagið myndi sameinast fjölmiðlafyrirtækinu Trump Media & Technology Group (TMTG).

Donald Trump, fyrrum Bandaríkjaforseti, tilkynnti í vikunni að fyrirtækið myndi stýra nýjum samfélagsmiðli sem ber heitið TRUTH Social og á að keppa við Twitter og Facebook. Trump var bannaður á samfélagsmiðlunum tveimur í janúar síðastliðnum.

Sjá einnig: Trump stofnar samfélagsmiðil

Hlutabréf Digital World hækkuðu úr 9,96 dölum á hlut í allt að 51,9 dölum í gær en stóðu í 45,5 dölum við lokun markaða.
Ellefu vogunarsjóðir eignuðust nær öll 25 milljón hlutabréfin í Digital World í 293 milljóna dala hlutfjárútboði í síðasta mánuði. Markaðsvirði Digital World nam meira en einn milljarður dala við lokun markaða í gær.

Sérhæfða yfirtökufélagið bauð hverjum vogunarsjóði 150 þúsund hluti á talsvert hagstæðari kjörum en í útboðinu, eða fyrir 0,0029 dali á hlut, til að hvetja til fjárfestingar í félaginu. Umrædd bréf kostuðu hvern sjóð 435 dali en við lokun markaða í gær var markaðsvirði þeirra um 6,8 milljónir dala. Vogunarsjóðirnir eru þó skuldbundnir til að eiga bréfin þar til samruninn við TMTG gengur formlega í gegn.

Einn virkur fjárfestir í Spac félögum lýsti kaupunum sínum í Digital World sem einum af bestu viðskiptum á ferlinum sínum og hyggst nú minnka hlut sinn í félaginu, að því er kemur fram í frétt Financial Times . Vogunarsjóðir selja gjarnan hlut sinn ef Spac félög fara á flug við tilkynningu um yfirtöku.

Annar ónefndur viðmælandi FT, sem átti nærri 10% hlut í Digital World, seldi allan eignarhlut sinn í sérhæfða yfirtökufélaginu snemma í gærmorgun við fréttirnar um samruna við Trump fjölmiðlafyrirtækið.

„Hugmyndin um að ég myndi hjálpa [Trump] að byggja falsfréttarekstur sem kallast Sannleikur (e. Truth) lét mig fá æluna upp í háls,“ er haft eftir honum.