Greiningardeild Arion banka telur það sanngjarnt að íbúar Landsbyggðarinnar fái stóra sneið af þeirri köku sem verður til við söluhagnað þeirra íbúða sem seldar verði á svæðinu. Samkvæmt mati bankans fengist 143 milljarðar króna meira fyrir fasteignarnar í Vatnsmýrinni, heldur en ef þær hefðu verið byggðar á jaðri höfuðborgarsvæðisins að því er kemur fram í Markaðspunktum Arion banka .

Hvar er skynsamlegast að byggja?

Í aðalskipulagi fyrir Reykjavíkurborg fram til ársins 2030 kemur fram að samanlagt byggingarmagn í Vatnsmýri gæti orðið um 6.900 íbúðir og 600.000 fermetrar atvinnuhúsnæðis. Miðað við þörfina fyrir fjölgun íbúða mun koma til þess að þessar íbúðir og þetta atvinnuhúsnæði verður byggt. „Spurningin er þessi: Hvar er skynsamlegast að byggja? Eða nánar tiltekið: Hversu mikið meira er virði þess að byggja þessar íbúðir í Vatnsmýri frekar en á jaðri höfuðborgarsvæðisins?“ er velt upp í greiningunni.

Til að áætla þennan mismun er gagnlegt að nota fasteignamatið hér að ofan, enda lýsir það markaðsverði fyrir nýbyggingar eftir svæðum á höfuðborgarsvæðinu. Hér að neðan má sjá töflu með helstu forsendum og niðurstöðum matsins út frá fasteignamati annars vegar í hverfum í kringum Vatnsmýri og hins vegar á jaðri höfuðborgarsvæðisins. Samkvæmt slíku mati er fasteignaverð almennt um og yfir 30% hærra í Vatnsmýrinni heldur en á jaðri höfuðborgarinnar. Það þýðir að virði íbúða í Vatnsmýri miðað við fasteignamat er meira en 30% hærra en á jaðri höfuðborgarsvæðisins sem að öðru óbreyttu skýrist af mismunandi lóðaverði eða virði staðsetningar nánar tiltekið. Þessi munur þýðir að heildarfasteignamat í Vatnsmýri myndi verða um 143 milljörðum króna hærra í Vatnsmýrinni. Með öðrum orðum fengust um 143 ma.kr. meira fyrir þessar fasteignir í Vatnsmýrinni að gefnum forsendunum hér.