Velta íslenskra tæknifyrirtækja í sjávarklasanum jókst um 10 til 15% í fyrra og er gert ráð fyrir 5 til 10% veltuaukningu á þessu ári. Þá búast fyrirtækin við að fjölga starfsfólki um 50 til 60 á árinu.

Þetta kemur fram í skoðun Sjávarklasans svokallaða, sem hefur það að markmiði að kortleggja alla starfsemi er tengist hafinu hér á landi.

Fram kemur í skoðun Sjávarklasans um þróunina í fyrra og á þessu ári að útflutningur skýri bróðurpart veltuaaukningar fyrirtækjanna og þau fyrirtæki sem hafa eflt markaðssókn erlendis, einkum stærri tæknifyrirtækin, auka veltu sína mest.

Horfur eru góðar í greininni en þó eru blikur á lofti vegna áframhaldandi óvissu um stjórnun fiskveiða hérlendis og stöðu efnahagslífs í helstu viðskiptalöndum.

Þá kemur fram í umfjöllun um málið að forsvarsmenn Sjávarklasans hafi gert athugun á veltu tæknifyrirtækja sem tengjast hafinu. Fyrirtækin hafi átt það sammerkt að stunda útflutning á tæknibúnaði undir eigin vörumerki. Rösklega 60 slík fyrirtæki starfi hér á landi.

Hins vegar mun áhyggjuefni, að enn skuli fá ný fyrirtæki sett á laggirnar í tæknigreinum, sem tengjast hafinu en á síðustu tveimur árum má telja nýstofnuð tæknifyrirtæki í þessum geira á fingrum annarrar handa. Talið er að neikvæð umræða um sjávarútveg spili þar inn í.

Lesa má nánar um málið hér .