Velta á fasteignamarkaði á höfuðborgarsvæðinu í vikunni dróst verulega saman á milli vikna og hefur ekki verið lægri í eitt ár. Um svipað leyti í fyrra minnkaði veltan töluvert á milli vikna, þó aðeins um stundarsakir.

Þannig nam veltan í vikunni 860 milljónum króna samkvæmt tölum frá Þjóðskrá Íslands, samanborið við 1.288 milljónir króna veltu í vikunni á undan og dróst því saman um 33% á milli vikna.

Fjögurra vikna meðalvelta lækkar töluvert við þetta og er nú 1.177 milljónir króna og hefur lækkað fjórar vikur í röð um rúmar 810 milljónir króna. Þá hefur fjögurra vikna meðalvelta ekki verið lægri frá því í um miðjan apríl á seinasta ári.

Til að sjá betur heildarmyndina af fasteignamarkaðir má sjá þróun fjögurra vikna meðalveltu á milli ára á myndinni hér að ofan. Þar sést að fjögurra vikna meðalvelta hefur nú aukist um 22% á milli ára en hafði á sama tíma í fyrra hækkað um 52% á milli ára.

Tólf vikna meðalvelta dróst saman um 44 milljónir króna á milli vikna í vikunni og nemur nú 1.700 milljónum króna. Þá má skoða meðalveltu á viku síðustu 12 mánuði en hún er nú 1.586 milljónir króna á viku og hefur aukist um 15% á milli ára.

Í síðustu viku:

Alls var 29 kaupsamningum þinglýst í vikunni, samanborið við 47 samninga í vikunni á undan. Alls var 56 samningum þinglýst að meðaltali á viku á síðasta ári þannig að nýliðin vika er nokkuð undir meðallagi.

Meðalupphæð á hvern samning nam 29,7 milljónum króna í vikunni, samanborið við 27,4 milljónir króna í vikunni á undan. Meðalupphæð á hvern samning á síðasta ári var 28,2 milljónir króna.

Meðaltal síðustu 12 vikna er 27,7 milljónir króna á hvern samning.