Sprotafyrirtækið SARdrones sigraði í frumkvöðlakeppni Innovit um Gulleggið 2013. SARdrones er ómannað leitarloftfar og hugbúnaður til aðstoðar við leit og björgun. Í öðru sæti var sprotafyrirtækið Intraz, lausn sem greinir ferli neytenda og kauphegðun þeirra til markvissrar veltuaukandi hagræðingar í smásöluverslun. Í þriðja sæti var sprotafyrirtækið Sigurást sem hannar fatnað fyrir fyrirbura sem dvelja á nýburagjörgæslum.

Þetta kemur fram í tilkynningu um niðurstöður Gulleggsins í ár. Í tilkynningunni segir um SARdrones: „Lausninni er ætlað að aðstoða björgunarsveitir við störf sín og gera þeim kleift að fljúga leitarloftfari yfir afmörkuð leitarsvæði og safna gögnum til greiningar. Að baki hugmyndinni standa Hjörtur Geir Björnsson og Skúli Freyr Hinriksson, nemendur á lokaári í verkfræði við Háskóla Íslands, Björn Geir Leifsson, skurðlæknir, Guðbrandur Örn Arnarson, viðskiptafræðingur og Ólafur Jón Jónsson, forritari en Guðbrandur og Ólafur eru jafnframt reyndir björgunarsveitarmenn. Teymið vinnur nú að frumgerð lausnarinnar og markaðssetningu á alþjóðlegum vettvangi. Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra afhenti sigurverðlaunin við hátíðlega athöfn í Háskólanum í Reykjavík í gær.“

Ennfremur segir: „Alls námu heildarverðlaun Gulleggsins um 3 milljónum króna. Auk verðlaunafé frá Landsbankanum veittu styrktaraðilar keppninnar aukaverðlaun til viðskiptahugmynda úr úrslitahópnum. Marel veitir viðskiptahugmyndinni Silverberg ráðgjöf við hönnun og smíði frumgerða, KPMG veitir viðskiptahugmyndinni geoSilica ráðgjafatíma hjá fyrirtækinu, Íslandsstofa veitir viðskiptahugmyndinni Betri Svefn þátttöku í ÚH verkefni Íslandsstofu og Advel Lögmenn veitir SARdrones ráðgjafatíma hjá fyrirtækinu. Þá vann SARdrones einnig til verðlauna í símakosningu NOVA fyrir skemmtilegustu kynninguna á lokahófi keppninnar.“