Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands ávarpaði þjóð sína í gærkvöldi og sagði að efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar myndi sporna gegn frekari samdrætti í Frakklandi.

Þá hét hann því jafnframt að hann myndi ekki gera sömu mistök og hann sagði Breta hafa gert.

Sakozy gagnrýndi Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands til að mynda fyrir að hafa lækkaði virðisaukaskatt. Hann sagði að einkaneysla í Bretlandi hefði ekki aukið við lækkun skattsins og lækkunin því haft lítil sem engin áhrif.

Sarkozy sagði að lækka virðisaukaskatt um 2% myndi ekki fá fólk til að versla meira „ef það óttast á annað borð framtíðina,“ eins og hann orðaði það í ávarpi sínu.

Sarkozy er undir miklu álagi þessa dagana en eftir mikil mótmæli í Frakklandi hafa bæði verkalýðssamtök og eins hin vinstri sinnaða stjórnarandstaða þrýst mjög á að hann leggi fram trúverðugar efnahagsáætlanir sem muni sporna gegn frekari samdrætti.

Ávarp Sarkozy fór reyndar þannig fram að hann var í 90 mínútna viðtali samtímis á þremur af stærstu sjónvarpsstöðum Frakklands. Þar sagði hann að ríkisstjórnin myndi fjárfesta um 26 milljörðum evra í atvinnulífinu sem myndi hafa mun meiri og betri áhrif en aukin einkaneysla.

Þá sagði hann að innan skamms væri hægt að lækka skatta á bæði fyrirtæki og einstaklinga.

Sarkozy boðaði einnig fundi með verkalýðsfélögum og hagsmunasamtökum atvinnulífsins. Hann hvatti fyrirtæki til að halda í starfsfólk sitt og reynda frekar að breyta starfshlutfalli starfmanna frekar en að segja þeim upp.

Aðspurður um hækkun lágmarkslauna útilokaði Sarkozy að slíkt stæði til. Hann sagði að fyrirtækin ættu nógu erfitt með að halda fólki í vinnu og það kæmi ekki til greina að auka álagið með því að þvinga fram hærri laun.

Sarkozy sagði að mótmæli síðustu vikna væru gegn þeim sem hefðu unnið skemmdarverk á fjármálakerfinu. Hann sagði að þau hefðu tekist vel en hann líti ekki svo á það þeim sé beint gegn sér persónulega.