Nicolas Sarkozy Frakklandsforseti hefur hvatt tilvonandi forsætisráðherra Bretlands, Gordon Brown, til að skilja eftir sínar "úr sér gengnu" hugmyndir um Evrópusambandið (ESB) þegar hann tekur við af Tony Blair í næsta mánuði. Frá þessu greindi Sarkozy í samtali við Financial Times á mánudaginn.

Föðurlegar ábendingar Sarkozy voru hins vegar ekki það eina sem hann hafði um Brown að segja, en að mati hins nýkjörna forseta Frakklands er Gordon Brown einn af "stórkostlegustu" fjármálaráðherrum Evrópu. "Undanfarin tíu ár sem Brown hefur gegnt embætti fjármálaráðherra hefur breska hagkerfið verið í framrás og nútímavæðst til muna. Ég vonast eftir því að í kjölfar þess að hann færir sig úr Downingstræti 11 yfir í Downing stræti 10 muni hann skilja að Evrópa er ekki úr sér gengin".

Efasemdarmaður í garð Evrópusamrunans
Stjórnmálaskýrendur telja að ummæli Sarkozy endurspegli þá undirliggjandi óvissu sem ríkir á meðal margra leiðtoga innan ESB um hvers konar Evrópustefnu Brown muni framfylgja þegar hann kemst til valda og hvort hann verði reiðubúinn að gera breytingar á stjórnkerfi og ákvörðunartökuferli sambandsins. Sem fjármálaráðherra lagði Brown ríka áherslu á að halda sér í ákveðinni fjarlægð frá Brussel til að skaða ekki pólitíska stöðu sína innanlands og hefur ræktað með sér það orðspor að hann sé efasemdamaður í garð Evrópusamrunans.

Á þeim eina mánuði sem liðinn er frá því að Sarkozy sigraði í forsetakosningunum í Frakklandi hefur hann lagt mikla áherslu á að endurlífga umræðuna um stjórnarskrá ESB, en henni var hafnað af Frökkum í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2005. Í frétt Financial Times er haft eftir Sarkozy að hann vonist eftir því að Brown muni fallast á einfaldari útgáfu af hinni upphaflegu stjórnarskrá fyrir ESB. Sarkozy hefur jafnframt beitt sér fyrir því að stjórnarskráin verði lögð fyrir franska þingið til að hljóta samþykki í stað þess að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu.

Sarkozy hefur haldið því fram að Tony Blair - sem var fyrsti stjórnmálaleiðtoginn í Evrópu til að hitta Sarkozy eftir kosningasigur hans - væri tilbúinn til að samþykkja nýja og styttri útgáfu af stjórnarskrá fyrir ESB á leiðtogafundi aðildarríkjanna 27 sem mun fara fram 21. og 22. júní næstkomandi. Bæði Sarkozy og Angela Merkel, kanslari Þýskalands sem um þessar mundir fer með forystu í ESB, hafa talið mikilvægt að ná samkomulagi á þeim fundi um nýja stjórnarskrá fyrir sambandið áður en Gordon Brown tekur við embætti forsætisráðherra af Blair.