Í sameiginlegri yfirlýsingu sem evrópskir fjármálaráðherrar sendu frá sér á þriðjudaginn er Nicolas Sarkozy, nýkjörinn forseti Frakklands, varaður við því að grafa undan sjálfstæði Seðlabanka Evrópu, en Sarkozy hefur meðal annars kennt peningmálastefnu bankans um þá stöðnun sem ríkt hefur í frönsku efnahagslífi.

Fjármálaráðherrarnir, sem luku í gær tveggja daga fundarhöldum í Brussel, sögðu að það væri enginn vilji fyrir því að breyta stefnu Seðlabankans á þá leið að hann eigi að einblína í meira mæli á hagvöxt og atvinnustig á evrusvæðinu, á sama tíma og bankinn reynir að halda niðri verðbólgu. Sarkozy, sem gegndi í skamman tíma embætti fjármálaráðherra árið 2004, hefur kallað eftir því að helstu stjórnmálaleiðtogar Evrópu geti haft meiri áhrif á stýrivaxtaákvarðanir Seðlabankans. Hann hefur gagnrýnt það sem hann kallar ?þráhyggju? Seðlabanka Evrópu að berjast gegn verðbólgu sem jafnvel sé oft ekki til staðar, með því að hækka stýrivexti að ástæðulausu og þannig stuðla að hærra gengi evru gagnvart Bandaríkjdal.

Sem fjármálaráðherra beitti Sarkozy sér fyrir því að vernda frönsk stórfyrirtæki sem hafa verið byggð upp í skjóli verndar ríkisvaldsins og í ræðum sínum í kosningabaráttunni fordæmdi hann yfirtöku indversks fyrirtækis á evrópska stálrisanum Arcelor. Sarkozy hefur einnig tekið undir áhyggjur sumra útflutningsfyrirtækja í Frakklandi, meðal annars Airbus og Air Liquide, að sterk staða evru gagnvart Bandaríkjadal sökum þeirrar peningamálastefnu sem Seðlabanki Evrópu fylgir, sé skaðleg fyrir samkeppnisstöðu þessara fyrirtækja á erlendum mörkuðum.

Hugmyndum Sarkozy að meira tillit verði tekið til þessarra þátta í vaxtaákvörðun Seðlabankas er hins vegar algjörlega hafnað í yfirlýsingu evrópsku fjármálaráðherranna. Wilhelm Molterer, fjármálaráðherra Austurríkis, sagði eftir fund ráðherranna í Brussel að ?enginn stjórnmálamaður ætti að setja þrýsting á Seðlabanka Evrópu. Hann er sjálfstæður
banki.?

Ef áframhald verður á gagnrýni Sarkozy á Seðlabankann gæti það haft skaðleg áhrif fyrir samskipti hans og Angelu Merkel, kanslara Þýskalands. Merkel hefur lagt mikla áherslu á það í stjórnartíð sinni að sjálfstæði Seðlabankans verði virt, sem hún telur að sé hornsteinn evrunnar. Annar hugsanlegur ásteytingarsteinn í samskiptum Þýskalands og Frakklands er sú skoðun Sarkozy að réttlætanlegt sé að beita ríkisvaldinu til styðja við bakið og vernda ákveðna atvinnuvegi, en á þriðjudaginn tilkynnti flokkur Merkel, Kristilegi Demókrataflokkurinn, að hann myndi vera málsvari frjálsra viðskipta í hvítvetna. Þýsk stjórnvöld myndu bregðast við þeim ríkisstjórnum sem ógnuðu viðskiptahagsmunum Þýskalands með því að taka upp verndarstefnu og beita viðkomandi
ríki refsiaðgerðum.

Ein ástæða þess að fjármálaráðherrar Evrópu sjá ástæðu til að setja fram þessi varnarorð til Sarkozy, aðeins nokkrum dögum eftir að hann er kjörinn forseti Frakklands, er sá ótti sem ríkir í sumu löndum um að hann muni leggja það til að breytingar verði gerðar á stofnsamningi Seðlabanka Evrópu og meira tillit verði tekið til hagvaxtar við vaxtaákvarðanir bankans. Í skiptum fyrir þá kröfu Sarkozy myndi hann í kjölfarið vera reiðubúinn að styðja það að stjórnarskrá Evrópusambandsins verði endurlífguð, en hingað til hefur Sarkozy sagst vera því mótfallinn. Fjármálaráðherra Grikklands, George Alogoskoufis, sagði hins vegar á þriðjudaginn að hann teldi ekki neinar líkur á því að Þýskalands, Ítalía eða Spánn myndu samþykkja slíkar tillögur.