Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands, ætlar að leggja til að ríkisreknar sjónvarpsstöðvar verði teknar af auglýsingamarkaði og að skattur verði þess í stað lagður á auknar auglýsingatekjur einkastöðva til þess að vega upp á móti tekjutapinu.

Forsetinn viðraði hugmyndina á blaðamannafundi í gær. Í kjölfarið hækkaði gengi hlutabréfa í fjölmiðlafyrirtækjum á franska hlutabréfamarkaðnum. Frönsk stjórnvöld hyggjast breyta útvarpslögum landsins meðal annars til þess að hægt verði að koma á laggirnar frönskum margmiðlunarrisum sem geta verið samkeppnishæfir á alþjóðavettvangi. Tillögur Sarkozys gera meðal annars ráð fyrir að opinberu stöðvarnar verði fjármagnaðar með skattlagningu á nýja fjarskiptatækni auk áðurnefndrar skattlagningar á auglýsingatekjur einkarekinna sjónvarpsstöðva.

Í október sl. skipuðu stjórnvöld vinnuhóp sem á meðal annars að leggja fram tillögur um umbætur varðandi rekstrarumhverfi opinberra fjölmiðla. Gert er ráð fyrir að starfshópurinn ljúki störfum á fyrsta fjórðungi þessa árs.