Nicolas Sarkozy, forsetaframbjóðandi hægri manna í Frakklandi, mun þrýsta á að settur verði svokallaður evrópskur skattur á spákaupmennsku fjármálahópa eins og vogunarsjóði, ef hann nær kjöri sem forseti landsins í kosningunum, sem fara fram 22. apríl og 6. maí næstkomandi. Sarkozy greindi frá þessu í viðtali við franska blaðið Les Echos og birtist á þriðjudaginn.

Í ljósi þess að Sarkozy er einn af fáum stjórnmálamönnum í Frakklandi sem hefur gengist við því að aðhyllast frjálslyndar hugmyndir í efnahagsmálum, koma þessi ummæli hans nokkuð á óvart. Hugmyndir hans um að skattleggja alþjóðlegar fjármagnshreyfingar eru einnig líklegar til að falla ekki í kramið hjá bandarískum og breskum stjórnvöldum, sem hafa beitt sér gegn öllum slíkum tillögum á vettvangi G-8 samtakanna. Á fundi þeirra um síðustu helgi féllust G-8 ríkin á málamiðlunartillögu sem Þjóðverjar lögðu fram um vogunarsjóði, þar sem þeir eru hvattir til að eiga frumkvæði að því auka gagnsæi með starfsemi sinni. Auk þess verður að teljast ósennilegt að fólk í frönsku viðskiptalífi sé sammála þessum skattatillögum Sarkozy, en að stórum hluta kýs það hann fremur en frambjóðanda sósíalista, Segolene Royal.

Sarkozy telur að það sé orðið nauðsynlegt að bæta siðferði og auka öryggi innan fjármálaheimsins. Það sé ólíðandi að "leyfa vogunarsjóðum að yfirtaka skuldir fyrirtækja, reka fjórðung starfsfólksins, skipta fyrirtækinu upp og selja það síðan", lét Sarkozy ennfremur hafa eftir sér. Stjórnmálaskýrendur benda á að þessi ummæli Sarkozy endurómi hefðbundinn málflutning hægri manna í Frakklandi í gegnum tíðina, sem ávallt hafi litið til kapítalisma og alþjóðlegra fjárfesta með ákveðnum efasemdum - að minnsta kosti frekar en skoðanabræður þeirra gera annars staðar í Evrópu.

Hins vegar lét Sarkozy einnig hafa það eftir sér í viðtalinu - eitthvað sem er líklegra til að gleðja helstu forkólfa í frönsku viðskiptalífi - að yrði hann forseti hygðist hann lækka skattbyrði Frakka um samtals 68 milljarða evra á tíu ára tímabili og fá þá til að vinna lengri vinnuviku en þeir gera um þessar mundir. Sarkozy gagnrýndi einnig harðlega þær hundrað hugmyndir sem Royal, helsti keppinautur hans um forsetaembættið, kynnti fyrr í vikunni og sagði þær einkennast af auknum skattaálögum á almenning og hærri ríkisútgjöldum.