„Undanfarna daga hefur rignt yfir mig skeytum og símtölum með ábendingum um myndina The Laundromat sem er aðgengileg á Netflix. Í henni er fjallað um Panama-skjölin og lögfræðistofuna Mossack Fonseca. Svo illa vill til að í henni birtist mynd af mér þegar fjallað er um spillta þjóðarleiðtoga,“ skrifar Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra á Facebook-síðu sína í dag.

Laundromat var frumsýnd á dögunum á Netflix efnisveitunni sem jafnframt er framleiðandi myndarinnar.„Egill Helgason fjölmiðlamaður skrifar á bloggi sínu í dag að myndin sé skylduáhorf fyrir Íslendinga. svo mjög sem við tengjumst Panamaskjölunum. En það verður að slá þann fyrirvara að myndin, sem nefnist Laundromat, er langt í frá gallalaus. Þetta er ekki heimildarmynd, og sumpart er maður ekki mikið nær um hvernig skattaskjól starfa, heldur er þetta leikin kvikmynd sem fjallar mest um áhrif falins fjár í skattaskjólum á nokkra einstaklinga,“ skrifar Egill og bætir stuttu síðar við

„Í þættinum er getið íslensks forsætisráðherra sem segir af sér vegna Mossack Fonseca lekans. Það sýnir hins vegar seinheppni Sigurðar Inga Jóhannssonar að þarna birtist mynd af honum, ekki Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni.“

Sigður Ingi er að vonum ekki sáttu við myndbirtinguna og hefur skrifað Netflix og kvartað yfir rangri framsetningu. „Eins og mér þykir það sárt og óþolandi að vera bendlaður við þessi spillingarmál í The Laundromat þá verður myndinni vart breytt úr þessu. Falsfréttir eru og verða vandamál á tækni- og upplýsingaöld. Það er áskorun fyrir fjölmiðlaheiminn og framleiðendur efnis að hafa sannleikann ávallt að leiðarljósi.“