Umframeftirspurn er eftir flugi til og frá Skandinavíu og fargjöld eru of lág að mati Elvin Roland, framkvæmdastjóra Scandinavian Airlines (SAS). Túristi greinir frá þessu.

„Allir vilja ódýra flugmiða en kúnnarnir verða að átta sig á að flugfélögin þurfa að afla tekna ef þau eiga að hafa efni á nýjum flugvélum, fljúga til fleiri áfangastaða og bjóða upp á betri þjónustu,“ segir framkvæmdastjórinn í samtali við Dagens Næringsliv.

Í ágúst seldist í 83% flugsætanna hjá SAS og Norwegian Air og er þetta nokkuð hærra hlutfall en félögin hafa mátt venjast. Forsvarsmenn SAS segja að lægri fargjöld séu ein helsta ástæðan fyrir því að sætanýting hafi aukist, en það sé hins vegar ekki kappsmál að halda henni hárri heldur að auka tekjur.