Norræna flugfélagi SAS er þessa dagana að senda 25.000 farþegum endurgreiðslu á farmiðum sínum vegna ferða sem féllu niður vegna eldgossins í Eyjafjallajökli. Þar að auki bíða 5.000 farþegar enn eftir að fá endurgreidda miða frá félaginu af sömu orsökum samkvæmt frétt VG í Noregi.

Endurgreiðslurnar munu nema um 185 milljónum sænskra króna (um 3 milljarðar ísl. kr.). SAS telur sig hafa tapað ríflega 700 milljónum sænskra króna ( um 11,4 milljörðum ísl. kr) á eldgosinu á Íslandi að því er fram kemur í hálfsársuppgjöri.

Það eru þó ekki eingöngu flugmiðar sem SAS þarf að endurgreiða. Samkvæmt upplýsingum frá upplýsingaráðinu Newspaq í Danmörku sem VG vitnar í munu yfir 4.000 ferðamenn sem urðu strandaglópar víða um heim fá endurgreiðslu á hótelkostnaði og mat.

SAS setti af stað í síðustu viku stærstu lággjaldaherferð sem félagið hefur nokkru sinni lagt út í. Byggir hún á því að setja á markað eina milljón lággjaldafarseðla. Þannig er ætlunin að fjölga farþegum félagsins um minnst 4-6%.

SAS tapaði um 600 milljónum sænskar króna á öðrum ársfjórðungi fyrir skatt en um 700 milljóna tap er rakið til öskunnar frá Eyjafjallajökli. Að goskostnaði frátöldum segir talsmaður SAS að um hagnað hafi verið að ræða á örðum ársfjórðungi.

Tapið nú er samt minna en búist var við. Á öðrum ársfjórðungi 2009 nam tap SAS 1.039 milljónum sænskra króna. Minnkaði veltan úr 12.223 milljónum á öðrum ársfjórðungi 2009 í 9.979 milljónir sænskra króna á sama tímabili 2010. Á sama tíma fækkaði farþegum í 6,3 milljónir eða um 8,3%.

Tap SAS á fyrstu sex mánuðum ársins 2010 fyrir skatta nam 1.572 milljónum sænskra króna á móti 2.018 milljóna króna tapi á fyrri árshelmingi 2009.