Skandinavíska flugfélagið SAS birti uppgjör sitt fyrir fyrstu níu mánuði ársins í morgun. Afkoman á 3. fjórðungi var talsvert undir væntingum spáaðila segir í Morgunkorni Íslandsbanka. Hagnaður SAS samstæðunnar á fjórðungnum nam 68 m.SEK samanborið við 699 m.SEK í fyrra. Ástæður verri afkomu nú eru að farþegafjöldi hefur ekki verið eins mikill og búist var við m.a. vegna mikillar samkeppni á flugleiðum í Evrópu.

Fyrstu níu mánuði ársins nam tap SAS 1,2 milljörðum SEK miðað við 834 m.SEK tap í fyrra. EBITDA-framlegð félagsins var 1,2 milljarðar SEK m.v. 670 m.SEK í fyrra. Það stefnir því í að SAS samstæðan sýni tap þriðja árið í röð en árið 2003 tapaði félagið 1,4 milljörðum SEK og árið 2002 132 m.SEK.