Norræna risaflugfélagið SAS ætlar að hætta að bjóða upp á breið sæti og meiri þjónustu í sérstöku viðskiptafarrými flugvéla félagsins. Vefsíðan Túristi fjallar um málið og rifjar upp að SAS hafi verið fyrsta evrópska flugfélagið til að bjóða upp á sérstök sæti fyrir þá sem voru tilbúnir til að greiða meira fyrir þjónustuna.

Aðeins verður hætt að bjóða upp á þjónustuna í Evrópu. Þegar er flogið út fyrir álfuna, s.s. til Asíu og Ameríku getur fólk borgað meira.

Túristi segir jafnframt að SAS hafi breytt um stefnu.  Sjö af hverjum tíu kílómetrum sem SAS fljúgi eru á leið milli evrópskra áfangastaða. Í sextíu prósent tilvika etur félagið kappi við norska lággjaldaflugfélagið Norwegian í flugi sínu innan álfunnar og lítur flugfélagið orðið á Norðmennina sem keppinauta sína. Það er ein af ástæðunum fyrir því að félagið láti viðskiptafarrýmið niður falla.

Í dag er boðið upp á þrjá verðflokka í vélum SAS en eftir breytingar verða þeir aðeins tveir, SAS Go og SAS Plus. Sá fyrri er ódýrari og þar verða farþegar að borga fyrir matinn sinn en fá áfram ferðapunkta. Þeir sem kaupa Plus miða fá tvöfalda punkta, sveigjanlegri miða, aðgang að betri stofum flugstöðva og komast hraðar í gegnum öryggisleit.