Scandinavian Airlines (SAS) mun í dag hefja beint flug á milli Íslands og Stokkhólms í Svíþjóð. Samkvæmt tilkynningu frá félaginu verður flogið fjórum sinnum í viku en SAS flýgur nú þegar daglega frá Osló til Keflavíkur.

„Við búumst fastlega við að stór hluti vaxtar í fluggeiranum komi frá orlofsferðalöngum og vitaskuld hyggjumst við höfða til ferðalanga á leið í frí,“ segir Bryndís Torfadóttir, framkvæmdastjóri SAS á Íslandi, í tilkynningunni.

Flogið verður á mánudögum, þriðjudögum, fimmtudögum og föstudögum. Flogið verður frá Stokkhólmi rétt fyrir kl. 8 á staðartíma og aftur frá Keflavík rétt eftir kl. 10 á staðartíma.

Icelandair hefur fram til þessa verið eina flugfélagið sem flýgur á milli Stokkhólms og Reykjavíkur en félagið flýgur að jafnaði 7-10 sinnum í viku á milli.