Carsten Dilling stjórnarformaður SAS segir að flugfélagið hafi tapað einum milljarði danskra króna, um 18,5 milljörðum íslenskra króna, frá því að verkfall um 1.000 flugmanna hófst fyrir tíu dögum. Börsen greinir frá.

Viðræður hófust aftur í dag milli samningsaðila í Stokkhólmi. Hlutabréfaverð SAS hækkaði um 18,1% í gær vegna frétta af nýjum samningaviðræðum og hækkaði um önnur 9% í dag.

Dilling vill að verkfallinu verði frestað um fjóra mánuði og gerður verður nýr samningur milli í hverju landi við verkalýðsfélögin, sem gildi um öll flugfélög. Hann segir að verkalýðsfélög flugmanna mismuni flugfélögum.

Mikill munur á SAS og Maersk

Samkvæmt núgildandi samningi flugmanna kostar flugmaður SAS 9.000 danskar krónur, 166.500 kr., á dag fyrir fullt starf. Samkvæmt tilboði flugmanna færi sá kostnaður niður í 8.000 danskar krónur, eða 148.000 kr.

Hins vegar hafi sömu flugmenn gert samning við nýtt fraktflugfélag Maersk þar sem kostnaðurinn er aðeins 6.000 danskar krónur á dag, eða 111.000 íslenskar krónur. Að sögn Dilling er þetta svipaður kostnaður og hjá SAS Link og SAS connect, dótturfélögum SAS. Deilan við flugmenn SAS snýst einmitt um kjör flugmanna hjá þessum tveimur dótturfélögum.