Skandinavíska ríkisflugfélagið Scandinavian Airlines (SAS) hefur nú skrifað undir viljayfirlýsingu við evrópska flugvélaframleiðandann Airbus um kaup á átta Airbus A350 vélum og fjórum A330 vélum. Listaverð pöntunarinnar er um 3,3 milljarðar Bandaríkjadala.

Þá hefur SAS jafnframt gengið frá samningum við Rolls Royce um kaup á hreyflum á vélarnar.

SAS á fyrir 30 Airbus vélar, þar af fjórar breiðþotur af gerðinni A330 og sjö A340. Með kaupunum á A350 vélinni mun félagið til lengri tíma nýta mun sparneytnari vél á lengri leiðum sínum og losa fjögurra hreyfla A340 vélina úr flota sínum með tímanum.

Fjallað var um rekstur og stöðu SAS í fréttaskýringu í sérstöku fylgiblaði Viðskiptablaðsins um flug um miðjan maí sl. Þar kom fram að SAS er nú með rúmlega 140 vélar í rekstri en aðeins 11 vélar sem geta flogið lengri flugleggi. Félagið hefur á síðustu árum lagt af marga af lengri flugleggjum sínum, t.d. Seattle sem nú er einn arðsamasti leggur Icelandair.

Áfangastaðir SAS í Bandaríkjunum eru nú aðeins fjórir en félagið hóf nýlega flug til San Francisco. Áfangastaðirnir í Asíu eru einnig aðeins fjórir. Félagið átti fyrir daginn í dag 46 vélar pantaðar (þar af 30 Airbus A320neo) en engin þeirra var ætluð til lengri flugleiða. Á sama tíma eru Norwegian og Finnair að fjölga arðsömum lengri áfangastöðum auk þess sem Icelandair flýgur til 10 áfangastaða vestanhafs og hefur þannig að nokkru leyti haft betur í samkeppninni við SAS um flug yfir Atlantshafið.

Áhersla SAS hefur legið í flugi innan Evrópu en með kaupum á þessum tólf breiðþotum er augljóst að félagið hyggst fjölga fjarlægari áfangastöðum sínum á ný.