Skandinavíska flugfélagið SAS tapaði einum milljarði sænskra króna, jafnvirði tæplega 17 milljarða íslenskra króna, á þriðja ársfjórðungi þessa árs. Gengi bréfa í SAS lækkaði um rúmlega 7 prósent í gær þegar rekstraruppgjörið var birt.

Mikil vandamál hafa einkennt rekstur SAS undanfarin misseri og hefur tapið verið nær gegndarlaust allt frá árinu 2008.

Til að bæta gráu ofan í svart var SAS gert í síðustu viku að greiða Norwegian tæplega 220 milljónir sænskra króna í bætur vegna samkeppnislagabrota. Þær komu til viðbótar rúmlega 100 milljóna króna sektar sem SAS Cargo var dæmt til þess að greiða vegna samkeppnislagabrota.