Fraktflutningadeild skandinavíska flugfélagsins SAS íhugar kaup á fraktflutningadeild Maersk. Þetta kemur fram í frétt Ritzau fréttastofunnar og var greint frá því á fréttavef danska viðskiptablaðsins Börsen. Ulrik Marschall upplýsingafulltrúi SAS Cargo staðfestir að áhugi sé fyrir hendi á að kaupa fraktflutninga Maersk en segir að ekki hafi verið gengið frá endanlegu samkomulagi.

"Það er áhugi fyrir hendi en hvort það endar með samkomulagi veltur en á mörgum þáttum," er haft eftir Marschall.

Í fréttabréfinu Travel People er þvæi haldið fram að búið sé að ganga frá samkomulagi um kaupin en því Marschall neitar að staðfesta það.

Maersk Air var keypt af eignarhaldsfélaginu Fons í júní síðastliðnum. Unnið er að sameiningu félagsins við Sterling en saman eru félögin stærsta lággjaldaflugfélag Norðurlanda og það fjórða stærsta í Evrópu. Ef marka má fréttir fyrr í kvöld hefur FL Group áhuga á að kaupa sameinað félag.