Norræna flugfélagið SAS á rúmlega 50 lendingarleyfi á Heathrow-flugvelli við London. Þetta jafngildir 3-5% af öllum lendingarleyfum þar. Áætlað verðmæti leyfanna nemur 250 milljörðum íslenskra króna. Til samanburðar á Icelandair Group tvö leyfi þar sem metin eru á tíu milljarða króna. Erfitt er að verða sér úti um lendingarleyfi á flugvellinum en þau sem vilja bæta Heathrow við leiðarkerfi sitt þurfa að kaupa leyfið hjá flugfélögum sem eiga slíkt.

Bent er á það í umfjöllun á vefsíðunni Túristi.is að dæmi séu um að lendingarleyfi hafi verið selt á sem svarar til fimm milljörðum króna.

Þar er sömuleiðis haft upp úr danska netmiðlinum Business.dk, að forsvarsmenn SAS hafi skoðað ýmsa möguleika til að bæta fjárhagsstöðuna og er nú á teikniborðinu áform þess efnis að taka lán með veði í leyfunum.

Túristi segir að þótt Icelandair eigi tvö lendingarleyfi á Heathrow þá séu ekki uppi áform um að koma þeim í verð.